Thursday, August 26, 2010

Topplistinn

Hér koma nokkrar myndir sem  eru í uppáhaldi hjá mér. Þessi listi á kannski eftir að breytast eitthvað eftir þetta námskeið.
American Beauty
Snilldar mynd frá árinu 1999 með Kevin Spacey í aðalhlutverki.  Myndin fjallar um hinn þunglynda og bælda Lester Burnham. Konan hans, sem er mega belja, lítur á hann sem algjöran lúsablesa og dóttir hans hatar hann.  Þegar Lester sér Angelu, vinkonu dóttur sinnar, kolfellur hann fyrir henni. Það er þá sem að hann ákveður að breyta lífi sínu.  Á sama tíma byrjar dóttir hans að hitta strákinn sem býr við hliðina á þeim og konan hans byrjar að halda við kollega sinn. Myndin sýnir því hvernig líf þeirra allra breytast á mjög skemmtilegan hátt. Mér fannst þessi mynd mjög vel gerð með fullt af snilldarsenum og snilldarlínum sem fá mann alltaf til þess að hlæja. Myndin hefur líka mjög góðan boðskap sem er “basically“ bara : lífið er stutt, njóttu þess.

Christiane F. – Wir kinder vom Banhof Zoo (Dýragarðsbörnin)
Mynd byggð á samnefndri bók eftir Christiane F sem segir frá sannsögulegum atburðum. Sagan fjallar um Christiane sem býr með móður sinni og systur í fátæklegri blokk í Berlín á sjöunda áratugnum.  Christiane, sem var þá 13 ára, byrjar að stunda klúbb sem hét Sound og var aðalstaðurinn. Þar byrjar hún að fikta í eyturlyfjum. Síðan kynnist hún strák sem heitir Detlef og vinum hans sem eru allir í eyturlyfjum.  Þau fara sífellt í harðari efni og hún endar sem heróínfíkill. Flestir í vinahópnum byrja einnig að selja sig til þess að eiga fyrir næsta skammti. Myndin sýnir þetta allt saman á mjög grófan hátt. Tónlistin í þessari mynd er mjög flott enda er hún samin af David Bowie sem var átrúnaðargoð Christiane (hún fer meira að segja á tónleika með honum í myndinni!).  Natja Brunckhorst fer með hlutverk Christiane og hún leikur það stórvel sérstaklega þar sem hún var einungis 14-15 ára þegar myndin var tekin. Þremur árum áður en ég sá myndina, las ég bókina en mér fannst myndin vera áhrifameiri þar sem hún sýndi þetta allt saman svo gróft. Þessi mynd er besta forvörn á eyturlyfjum sem ég veit um, allavega langaði mig ekki að koma nálægt þessu eftir að hafa séð þessa mynd.

Some Like it Hot
Klassísk mynd, leikstýrð af Billy Wilder. Ég bjóst ekki við að þessi mynd væri skemmtileg þar sem ég sá hana fyrst mjög ung en hún hefur verið í uppáhaldi alveg frá því ég sá hana fyrst og hef ég horft á hana margoft síðan. Það sem kom mest á óvart var það hversu ótrúlega fyndin hún er og fer Jack Lemmon á kostum sem “Daphne“.  Myndin fjallar um Joe (Tony Curtis) og Jerry (Jack Lemmon) sem eru tónlistarmenn frá Chicago sem verða vitni af fjöldamorðum framin af mafíunni. Þeir neyðast til þess að flýja bæinn en eina starfið sem þeir gátu fengið var í kvennabandi þannig að þeir ákveða að klæða sig upp sem kvenmenn og fara þeir með bandinu til Miami. Þar kynnast þeir Sugar Kane (Mariyn Monroe) sem spilar á ukulele og syngur í hljómsveitinni.  Joe bregður sér í annan búning sem ungur erfingi olíufyrirtækisins shell til þess að ganga í augun á Sugar og einn hótelgestanna, Osgood Fielding, kolfellur fyrir “Daphne“. Hápunktur myndarinnar er svo þegar að mafían kemur á ráðstefnu á sama hótel og þeir dvelja á og endar í stórskemmtilegum eltingarleik.


Lion King
Þessi mynd varð að vera á topplistanum mínum ekki bara af því að hún var languppáhaldsmyndin mín þegar ég var lítil heldur af því að hún er bara algjört meistaraverk! Sagan er góð og skemmtileg, lögin algjör snilld og hún er bara ótrúlega vel gerð. Ég hef ábyggilega séð þessa mynd 100 sinnum og ég kann hana liggur við utanbókar/spólu (sem er mjög svalt ekki satt?). Þessi mynd var upphaf á fáránlegri ljónadýrkun minni sem er bara líka mjög kúl.....

Moulin Rouge
Moulin Rouge, leikstýrð af Baz Luhrmann með þeim Nicole Kidman og Ewan McGregor í aðalhlutverki er frábær söngmynd frá árinu 2000. Þó ég hafi ekki mikið vit á kvikmyndagerð þá tók ég nú samt eftir því hvað þessi var frábrugðin öðrum myndum, á góðan hátt. Þetta er mjög góð ástarsaga með frábærum lögum og Ewan og Nicole sína frábæra frammistöðu.

Nokkrar myndir sem náðu næstum því á listann:
Donnie Darko
Forrest Gump
Napoleon Dynamite
Night at the Roxbury
Anchorman: The Legend of Ron Burgandy
Smá klippa úr American Beauty:


Og úr Some Like it Hot: